Afkoma ársins
Faxaflóahafnir
Rekstrarniðurstaða
Hagnaður ársins 2022 nam 3.373 m.kr. sem má að miklu leiti rekja til sölu á Hafnarhúsinu en það var afhent Reykjavíkurborg þann 1. júlí síðastliðinn. Hagnaður tímabilsins án óreglulegra liða var 1.304 m.kr. sem er töluvert betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Til samanburðar var hagnaður án óreglulegra liða 851 m.kr. fyrir árið 2021. Hagnaður fyrir afskriftir nam 2.063 m.kr. en á sama tíma árið áður nam hann 1.654 m.kr
Rekstrartekjur
Rekstrartekjur ársins voru samtals 5.159 m.kr. eða 840 m.kr. yfir áætlun. Árið áður voru tekjur 4.145 m.kr. Allir tekjuliðir hækkuðu milli ára. Fjárhagsáætlun gerði ekki ráð fyrir þeirri miklu aukningu í komu farþegaskipa árið 2022 sem varð en varlega var farið í að meta aukningu á milli áranna. Vörugjöld voru aðeins yfir áætlun og aflagjöld voru einnig nokkuð yfir áætlun sem að stærstum hluta orsakast af hærra aflaverðmæti en undafarin ár. Skipagjöld og tekjur af hafnarþjónustu voru talsvert yfir áætlun þar sem skip sem koma til hafnar eru bæði fleiri og stærri en áður auk aukningar í komum skemmtiferðaskipa sem minnst var á hér að framan.
* Sala á Hafnarhúsinu tekin út þar sem hún skekkir samanburð
Skipa- og farþegagjöld og tekjur af hafnarþjónustu og siglingarvernd
Skipagjöld og hafnarþjónusta skiluðu samanlagt 1.647 m.kr. í tekjur, sem er um 32% heildartekna. Samanlagt var gert ráð fyrir 1.187 m.kr. og skila þessir liðir 460 m.kr. umfram áætlun. Aukninguna má rekja til þess að á tímabilinu jókst umferð skipa miðað við fyrra ár og að auki voru tonnastærðir þeirra meiri. Auk þess voru færslur innan hafnar tíðari en undanfarin ár.
Eignatekjur og aðrar tekjur
Leigutekjur af lóðum og fasteignum mynda stofn eignatekna sem voru aðeins yfir áætlun sem má skýra með meiri hækkun á byggingavísitölu en gert var ráð fyrir. Flestar eignir eru í langtímaútleigu.
Tekjur flokkaðar eftir hafnasvæðum
Þegar heildarrekstrartekjur eru skoðaðar eftir hafnarsvæðum má sjá að Sundahöfn er sem fyrr tekjuhæsta hafnarsvæðið, en Sundahöfn er megingátt flutninga á vörum til og frá Íslandi.
Tekjur af farþegagjöldum eru komnar á svipaðan stað og fyrir Covid faraldurinn, en þá duttu tekjur niður í nánast ekki neitt.
Eignatekjur voru hæstar í Sundahöfn og aflagjöld hæst í Gömlu höfninni, enda meginhlutanum af bolfiski sem berst til hafnarinnar landað þar. Vörugjöld í Gömlu höfninni voru fyrst og fremst vegna eldsneytisinnflutnings á Eyjargarði.
Rekstrargjöld
Rekstrargjöld Faxaflóahafna sf. árið 2022 voru 3.954 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 3.986 m.kr. Árið 2021 voru rekstrargjöld 3.306 m.kr. og hækkuðu um 20% á milli ára. Útgjöldin ráðast hins vegar ekki eingöngu af verðlagi heldur einnig sérgreindum viðhaldsverkefnum sem falla undir rekstur og geta verið mismunandi á milli ára.
Heildarrekstrargjöld voru á áætlun, en munur var á milli flokka. Mesti munur var í hafnarmannvirkjum, en þar munar 109 m.kr. eða 15,7%. Einnig var siglingarvernd 23 m.kr. hærri en áætlun sagði til um. Afskriftir voru 93 m.kr. lægri og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður var 45 m.kr. undir áætlun. Samtals voru rekstrargjöld 33 m.kr. undir áætlun, eða tæpu 1%.
Launakostnaður
Launakostnaður hækkaði um 241 m.kr. milli ára eða 20%. Faxaflóahafnir halda úti sólarhringsvöktum í hafnarþjónustu og hafnargæslu á Grundartanga og er launakostnaður fyrirtækisins einn meginútgjaldaliður þess.
Heildarlaunakostnaður á árinu nam 1.461 m.kr en áætlun gerði ráð fyrir 1.432 og var því 29 m.kr. yfir áætlun. Á tímabilinu þurfti að leiðrétta laun vegna yfirvinnu og vaktaálags vaktavinnustarfsmanna. Aukið álag vegna aukningar í komu skemmtiferðaskipa og vinnutímastytting hafði í för með sér aukinn launakostnað sem reynt hefur verið að bregðast við með breytingum á vaktafyrirkomulagi hafnarþjónustunnar. Bætt hefur verið við mannskap, bæði föstum starfsmönnum í vaktavinnu hafnarþjónustunnar og einnig afleysingamönnum. Nokkuð hefur verið um tvöföld laun þ.e. nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til að leysa af eldri starfsmenn og viðvera þeirra hefur skarast um nokkra mánuði í 5-6 tilvikum.
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld
Tekjur af fjármunaliðum námu um 98,3 m.kr. Hagnaður fyrir fjármunaliði var sem fyrr segir 1.206 m.kr. en að teknu tilliti til fjármunaliða var hagnaður 1.304 m.kr. (án óreglulega liða).
Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 18.830 m.kr. og hafa aukist um 16% á árinu. Þar af námu fastafjármunir 13.822 m.kr. og veltufjármunir 5.007 m.kr. Heildarskuldir námu 598 m.kr. og langtímaskuldir eru engar. Eigið fé félagsins er 18.232 m.kr.
Sjóðstreymi
Veltufé frá rekstri var 2.142 m.kr. Keyptir varanlegir rekstrarfjármunir, sem eru vegna framkvæmda á tímabilinu voru 1.009 m.kr.
Greiðsla barst vegna sölu á Hafnarhúsinu 1.100 m.kr. og eru útistandandi 985 m.kr. vegna sölunnar.
Með nettó fjárfestingu er átt við fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum að frádregnum seldum rekstrarfjármunum. Arðgreiðsla upp á 766 m.kr. var greidd til eigenda á árinu.
Eftirfarandi tafla dregur saman kennitölur Faxaflóahafna fyrir árin 2018-2022:
*Án óreglulegra liða