Niðurlag

Niðurlag 2022

Rekstur Faxaflóahafna gekk vel á árinu og efnahagur styrktur enn frekar frá fyrra ári. Félagið er skuldlaust og því vel í stakk búið til að takast á við fjárfestingar næstu ára sem og hugsanlegri ágjöf á rekstur.

Skipulagsmál voru áfram í brennidepli í rekstri félagsins og þar vega áform um Sundabraut þyngst. Áhrif hennar á starfsemi félagsins í Sundahöfn gætu orðið umtalsverð og því félaginu mikilvægt að ákvörðun liggi fyrir sem fyrst, svo bregðast megi við þeim aðstæðum sem gætu skapast, muni Sundabraut skera svæðið. Á árinu var jafnframt unnið að gerð þróunaráætlunar Gömlu hafnarinnar í Reykjavík og er sú vinna enn í gangi með skipulagsyfirvöldum í Reykjavík.

Áfram var lögð áhersla á grænar umbætur í starfsemi hafnarinnar og rík áhersla lögð á að draga úr umhverfisáhrifum í verkefnum og starfsemi Faxaflóahafna. Fyrirtækið hefur innleitt kröfu um að öll skip skuli vera landtengd sé landtenging fyrir hendi. Til þessa hafa rafmagnslandtengingar verið eingöngu í boði á 400 V og 50 riðum. Nú hafa Faxaflóahafnir ákveðið að leggja út í að setja upp stærri rafmagnslandtengingu fyrir skip sem þurfa 60 rið og aðra spennur eins og 440 V og 690 V. Fyrsta tengingin verður tilbúin á árinu 2023 á Faxagarði samhliða tengimöguleika á heitu vatni. Á árinu 2022 var jafnframt tekin í notkun háspennutenging á Sundabakka fyrir gámaskip. Um var að ræða samstarfsverkefni Faxaflóahafna, Eimskips, Veitna og ríkisins. Um er að ræða eina fyrstu landtengingu gámaskipa á Norðurlöndum og stórt framfaraskref í minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda í gámaflutningum til landsins.

Vinna hélt áfram við innleiðingu og uppfærslu upplýsingatæknikerfa félagsins á árinu samhliða bættum stjórnendaupplýsingum. Markmið fyrirtækisins til framtíðar eru áfram að bjóða góða og skilvirka þjónustu til viðskiptavina sinna og geta mætt kröfum og væntingum um öruggar, grænar og snjallar hafnir.

Reykjavík, 12. júní 2023
Gunnar Tryggvason,
hafnarstjóri