Umhverfi og öryggi

Öryggi, heilbrigði og umhverfi

Faxaflóahafnir sf. eru með virkt og vottað umhverfisstjórnunarkerfi frá árinu 2017 samkvæmt alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001.
Faxaflóahafnir vinna í samræmi við metnaðarfulla öryggis-, heilbrigðis- og öryggisstefnu sem má finna hér.

 

Umhverfismál

Faxaflóahafnir sf. leggja áherslu á að vera leiðandi í umhverfismálum, að dregið sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá starfseminni, unnið sé að stöðugum umbótum og að fylgst sé með frammistöðu í umhverfismálum.

Faxaflóahafnir hafa haldið grænt bókhald frá árinu 2016 og frá árinu 2018 hefur verið stuðst við alþjóðlega viðurkennda aðferðafræði, Greenhouse Gas Protocol (GHG Protocol) sem sýnir vel afleidd umhverfisáhrif frá rekstri fyrirtækisins ofar og neðar í virðiskeðju þess. Skýrslugjöfin stuðlar að aðhaldi og vöktun í fyrirtækinu en einnig góðri upplýsingagjöf og samskiptum við innri og ytri hagaðila. Grænt bókhald má finna hér.

Á myndinni hér að ofan, sem kemur úr grænu bókhaldi 2022, má sjá hvernig kolefnislosun dreifist á umföng. Eins og myndin sýnir skýrt er uppruninn að mestu frá brennslu jarðefnaeldsneytis ásamt framleiðslu og flutningi þess (dráttarbátar, bifreiðar og akstur starfsmanna til/frá vinnu). Notkun eldsneytis jókst milli áranna 2021 og 2022. Árið 2022 var útblástur gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefniseldsneytis um 975,9 tCO2Í  sem er er 22% aukning á milli áranna 2021 og 2022.

Faxaflóahafnir höfðu það að markmiði að verða kolefnishlutlausar strax fyrir árið 2020. Því er náð með miklum og góðum árangri í eigin skógrækt og endurheimt eigin votlendis sem nemur 1764 tCO2Í fyrir árið 2022. Þar af voru 1196 tCO2Í bundin með endurheimt votlendis Katanestjarnarinnar og 568 tCO2Í bundin í skógi. Nettó losun Faxaflóahafna var því neikvæð um -444 tCO2Í, sé litið á losun gróðurhúsalofttegunda í allri virðiskeðjunni, sem þýðir að meira magn gróðurhúsalofttegunda hafi verið dregið úr andrúmslofti en var losað.

Þrátt fyrir að nettólosun sé neikvæð breytir það ekki mikilvægi þess að halda áfram ráðstöfunum fyrra árs til að draga úr losun vegna eldsneytisnotkunar. Áfram verður horft til þess að nýta þau tækifæri sem bjóðast til að orkuskipta og stuðla að grænni siglingamáta dráttarbáta með aðstoð upplýsingakerfis sem sýnir eldsneytisnotkun fyrir notendum. Losun vegna ferða starfsfólks í og úr vinnu hefur minnkað umtalstvert en árið 2018 var hún 51,2 tCO2Í og árið 2022 29,5 tCO2Í og 2,2% af allri losun vegna reksturs Faxaflóahafna.

Útstreymisbókhald vegna skipakoma hefur verið haldið frá árinu 2016. Útstreymisbókhald má finna hér. Helstu niðurstöður eru að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist um 17.700 tonn CO2-e sem skýrist af auknum skipakomum en þær fóru úr 3 670  árið 2021 í 5 394 árið 2022.

Heilbrigðis- og öryggismál

Faxaflóahafnir hafa innleitt vottað ISO 45001 öryggisstjórnkerfi. Í því felst að öryggisreglur hafa verið settar á grundvelli virks áhættumats fyrir starfsemina og gilda þær reglur jafnt fyrir starfsfólk og verktaka á vegum fyrirtækisins. Virk orsakagreining hjálpar til við að læra af reynslunni, koma í veg fyrir endurtekin atvik og uppfæra þau varnalög sem eru til staðar

Ábendingar á árinu

Faxaflóhafnir eru með virkt ábendingarkerfi þar sem starfsfólk, viðskiptavinir og almenningur geta sent inn ábendingar um það sem vel er gert og betur má fara. Ábendingakerfið er mikilvægt verkfæri fyrir skráningar um tjón, óhöpp og mengunaratvik sem koma upp.

Áhersla er lögð á góðar skráningar þar sem þær eru mikilvægar til að halda starfsfólki, stjórnendum og stjórn upplýstum um atvik sem orðið hafa. Þessar upplýsingar eru einnig mikilvægar til orsakagreiningar atvika sem upp koma með það að markmiði að læra af og gera betur.

 

Hér á eftir má sjá tölfræði skráðra ábendinga sem brotnar eru niður á helstu málaflokka samanborið við 2021.

 

Alls bárust fyrirtækinu 89 ábendingar eða tilkynningar. Ábendingar fækkuðu milli ára um 16%, og áfram er stöðug hvatning í gangi til þess að atvik séu tilkynnt. Seint á árinu var innleitt nýtt umsjónarkerfi með ábendingum sem mun gefa betri yfirsýn og tölfræði.

Öll stærri atvik eru orsakagreind, kynnt starfsfólki og leitað leiða til úrbóta.

Slys voru 10 sem er fækkun frá 2021. Lögð hefur verið áhersla á að öll atvik séu skráð. Af þessum 10 slysaatvikum voru þrjú fjarveruslys.

Á árinu 2023 verður áfram lögð áherslu á að næstum slys séu vel tilkynnt til að aðstoða við að  fyrirbyggja mögulega slys.

Tilkynnt tjón eru 35, aukning er þar í skráningu tjóna á búnaði, fasteignum og eigin bátum, en almennt séð er dreifingin nokkuð jöfn á flokka.

Mengunaróhöpp urðu 9 í stað 8 árið áður. Óhöppin voru bæði á sjó og landi og flest þeirra má rekja til olíuleka í óverulegu magni af völdum mannlegra mistaka.

 

 

 

 

Sundurliðun atvika niður á einstaka flokka

Slys (vinnuvernd)

Fjarveruslysin voru þrjú og er það þremur of mikið. Markmið er ávallt slysalaus vinnustaður. Sem betur fer eru þetta ekki alvarleg slys.  Skyndihjálpar/minniháttar slysin voru 5 og eru flest vegna falls eða minniháttar atvika.

Öll slys eru tekin alvarlega og atburðarás skoðuð. Tilgangurinn er að draga lærdóm af og finna tækifæri til að gera betur og koma í veg fyrir slys.

Tjón – Óhöpp. 

Tilkynnt tjón voru 35. Aukning dreifðist nokkuð á alla flokka ef undan er skilin flokkarnir hafnarmannvirki og búnaður.


Mengunartilvik

Tilkynnt mengunaratvik urðu 11 í stað 8 árið áður. Engin stór atvik urðu og er orsaka að leita helst í bilunum tækja eða mannlegra mistaka. Oftast var um að ræða olíumengun í mjög litlu magni og hefur mengunarvarnabúnaður hafnarinnar sannað gildi sitt. Ekki varð vart við nein alvarleg frávik í gerlamælingum á árinu.

Faxaflóahafnir leggja mikið upp úr því að fá sem flestar ábendingar um hvað megi betur fara. Flestar tilkynningar eru vegna öryggismála, enda áhersla hjá fyrirtækinu að beina sjónum að bættu öryggi með betri skráningum um það sem þarfnast athugunar til að koma í veg fyrir slys.