Ávarp stjórnarformanns

 

Árið 2022 var nokkuð merkilegt ár sem hófst með en einni COVID bylgjunni og voru samgöngutakmarkanir enn partur af öllu skipulagi og virðiskeðju félagsins. Mjög snemma kom þó í ljós að 2022 væri árið sem heimsfaraldur liði undir lok hvað varðar samgöngutakmarkanir og að viðskipti kæmust aftur í eðlilegt horf. Árið var gott hvað varðar viðskipti og áætlanir um uppbyggingar. Arðsemi félagsins var afar góð sem hefur kallað á vinnu við fjármagnsskipan félagsins, þar sem handbært fé félagsins er afar mikið. Arðgreiðslustefna verður kynnt á aðalfundi félagsins í lok júní 2023.

Skemmtiferðaskipin hófu komu sína aftur árið 2022 og fljótlega kom í ljós að mikil aukning væri í slíkri ferðaþjónustu. Ný tegund innan skemmtiferðaskipaferða hefur hafið innreið sína í Faxaflóahöfnum en það eru farþegaskipti, Slíkt fyrirkomulag hefur áhrif á alla aðstöðu, umsýslu og ekki síst á fjárfestingar og uppbyggingaráætlanir félagsins.

Stríð í Úkraínu, með miklum afleiðingum á virðiskeðjur á heimsmörkuðum, aukna verðbólgu og hækkandi vextir, hefur áhrif á allar áætlanir Faxaflóahafna. Virðiskeðja á stríðstímum hefur áhrif á áætlanir félagsins sem nú taka mið af heimsmarkaði og innrás Rússa í Úkraínu.

Unnið var að nýrri eigendastefnu og voru drögin kynnt eigendum, ásamt því sem nýr sameignarfélagssamningur var samþykktur á aðalfundi 2022. Kynntar voru breytingar á stjórn Faxaflóahafna. Góðir stjórnarhættir innleiddir þar sem m.a. yrði fækkað í stjórn, ásamt því að innleidd væri sú breyting að í stjórn sætu bæði háðir og óháðir stjórnarmenn en það eru nýmæli í hafnarstjórn. Samkvæmt nýjum sameignarfélagssamning og nýrri eigendastefnu er aðkoma eiganda meiri hvað varðar alla stefnumótun. Ný eigendastefna var samþykkt í byrjun árs 2023 og ný stjórn kjörin í kjölfarið.

Unnið er að orkuskiptum og hafa Faxaflóahafnir sett sér það markmið að vera leiðandi í þeim breytingum hvort heldur í verkefnum eða í breytingum á gjaldskrám sem hvetja til orkuskipta og ábyrgra viðskiptahátta.

Áhugaverðir tímar eru framundan hjá Faxaflóahöfnum, uppbygging farþegaskiptamiðstöðvar, stækkun á bryggjunni við Akraneshöfn og uppbygging nýrra höfuðstöðvar Faxaflóahafna þar sem leitast verður við að sameina sem flesta starfsstaði félagsins. Þróunaráætlun Grundartanga og tækifæri í Hvalfirði eru sannarlega á teikniborðinu ásamt orkuskiptum sem er stóra verkefni félagsins á næstu árum.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
formaður stjórnar Faxaflóahafna