Ávarp hafnarstjóra

Árið 2022 reyndist Faxaflóahöfnum farsælt bæði frá sjónarhóli öryggis og rekstrar. Góður vöxtur, töluvert umfram áætlanir, varð í okkar stærstu greinum þ.e.a.s. þjónustu við farþegaskip og flutningaskip.  Sjávarútvegurinn stóð jafnframt fyrir sínu.  Tekjur og rekstrarafkoma var sú besta í sögu fyrirtækisins. Félagið greiddi eigendum sínum 766 m.kr. í arð á árinu, enda er afkoman góð og fjárhagsstaðan sterk. Líf flestra varð eðlilegt aftur þegar öllum takmörkunum vegna farsóttarinnar var aflétt á fyrri hluta ársins og starfsemi aftur komin í fyrra horf.  Tvö fjarveruslys urðu hjá okkur á árinu og fjögur skyndihjálparslys og er það fækkun tilfella frá árinu áður.

Hafnarhúsið var formlega afhent Reykjavíkurborg á árinu þó það muni áfram hýsa höfuðstöðvar fyrirtækisins.  Samhliða því var hafist handa við staðarval á nýjum höfuðstöðvum.  Af helstu nýframkvæmdum má nefna að verkefnið við lengingu Aðalhafnargarðs á Akranesi hófst með því að stálþil voru keypt til verksins.  Framkvæmdir eru nú í fullum gangi.  Nýtt fyrirtæki, Running Tide hóf rekstur á Grundartanga, en það hyggur á bindingu kolefnis í sjó með nýstárlegum aðferðum.

Undir lok árs var stærsta flutningaskip í reglulegum siglingum til Íslands tengt landrafmagni, þegar Dettifoss var tengdur á Sundabakka.  Næsta verkefni þessu tengt er landtenging skemmtiferðaskipa á Faxagarði í Gömlu höfninni sem unnið var að á árinu og er nú á lokametrunum.

Verkefni þessa árs eru margþætt en tengjast mörg hver vexti í hafntengdri ferðaþjónustu og auknum kröfum í umhverfismálum.  Er þar m.a. um að ræða undirbúning ákvörðunar um byggingu farþegamiðstöðvar við Skarfabakka og landtenginga fyrir stærstu gerð farþegaskipa við sama bakka.

 

Gunnar Tryggvason
Hafnarstjóri