Fjárfestingar og framkvæmdir

Fjárfestingar og framkvæmdir á árinu 2022

 

Fjárfestingar ársins námu um 1.009 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 1.890 m.kr. Helstu verkefnin voru eftirfarandi:

  • Í Gömlu höfninni var nýr hjólastígur á Fiskislóð tekinn í notkun. Framkvæmdir við endurnýjun Verbúðarbryggju voru að mestu kláraðar með frágangi á bryggjunni, veitukerfum og aðkomu. Lagnavinnu undir Faxagarði lauk á árinu. Auk þess hófst vinna við framleiðslu á rafbúnaði vegna nýrra landtenginga. Afhending búnaðarins tafðist vegna skorts á íhlutum og var því uppsetningu frestað fram á næsta ár. Hafinn var undirbúningur við nýja bílavog og aðstöðu vigtarmanna. Vinna við þróunaráætlun Gömlu hafnarinnar var unnin á árinu og heldur sú vinna áfram á næsta ári í samráði við skipulagsyfirvöld í Reykjavík.
  •   Í Sundahöfn var farið í frekari rannsóknir á menguðu efni í seti og niðurstöður þeirrar skýrslu kynntar Umhverfisstofnun í framhaldinu. Unnið var að frumhönnun og þarfagreiningu nýrrar farþegamiðstöðvar við Skarfabakka auk þess sem farið var í innkaup á nauðsynlegum búnaði fyrir bráðabirgðaaðstöðu á Skarfabakka.
  • Á Grundartanga var haldið áfram að vinna efni til að nýta við stækkun á farmsvæðum á baksvæði Tangabakka. Unnið var að ýmsum skipulagsmálum á svæðinu í tengslum við breytingar á lóðum og mögulegum úthlutunum lóða á svæðinu.
  • Á Akranesi var vinnu við hönnunargögn á lengingu Aðalhafnargarðs að mestu lokið fyrir útboð auk þess sem innkaup á stáli fyrir framkvæmdina voru gerð á árinu. Þess má geta að stálþilið sem keypt var er allt úr endurunnu stáli. Framkvæmdir munu hefjast á fyrri hluta árs 2023.
  • Annað: Að venju var unnið að malbikun á svæðum Faxaflóahafna og fyrstu skrefin voru tekin í LED væðingu lýsingar á bökkum Faxaflóahafna. Auk þessara verka, voru svo fjölmörg minni verk unnin á árinu.

Rauntölur fyrir fjárfestingar ársins voru vel undir fjárhagsáætlun. Það má skýra að hluta til með því að einhverjum verkefnum var slegið á frest vegna breyttra forsendna og hætt við önnur. Einnig hefur ástandið í heiminum orðið þess valdandi að afhending rafbúnaðar á Faxagarði hefur frestast fram á nýtt ár og greiðslur vegna hans líka. Fjárfestingar vegna stærri landtenginga við Miðbakka og í Sundahöfn hafa farið hægar af stað en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þarfagreining og kortlagning aflþarfar skipanna er í fullum gangi en fjárfesting í búnaði og innviðum er ekki farin af stað.

Tímalína við þróun Sundahafnar hefur enn dregist þar sem meginástæðan er óvissa vegna Sundabrautar og einnig vegna endurskoðunar á þörfum og forsendum sem gerð var á árinu.

Í fjárhagsáætlun ársins var gert ráð fyrir að farið yrði í undirbúning innviða vegna rafeldsneytisframleiðslu á Katanesi en hefur sú vinna ekki farið af stað utan matsáætlunar sem var gerð á árinu.