Inngangur
Inngangur 2022
Á árinu 2022 varð töluverður vöxtur umfram áætlanir, að mestu vegna aukningar á komu farþegaskipa umfram hóflegar væntingar fyrir árið. Rauntölur um fjárfestingar ársins voru vel undir fjárhagsáætlun m.a. vegna frestunar á verkefnum og/eða breyttra forsendna.
Á árinu 2022 var Hafnarhúsið, Tryggvagötu 17 afhent Reykjavíkurborg en húsið var selt á árinu 2021. Starfsemi Faxaflóahafna verður áfram hýst í Hafnarhúsinu eða þar til nýjar höfuðstöðvar hafa verið reistar, sem fyrirhugað er á næstu árum. Eignin var að mestu afskrifuð í bókum félagsins og því bókast söluhagnaður vegna sölunnar á árinu.
Helstu framkvæmdaverkefni ársins voru m.a. endurnýjun á Verbúðabryggu í Gömlu höfninni í Reykjavík en nýja bryggjan var tekin í notkun á vormánuðum 2023 og er hin glæsilegasta. Þá var unnið að undirbúningi og innkaupum á rafbúnaði vegna landtenginga við Faxagarð í Gömlu höfninni í Reykjavík, ásamt tengimöguleika á köldu og heitu vatni. Tengingin er liður í stefnu Faxaflóahafna um forystu í loftlags- og umhverfismálum og er ætlað að þjóna tveimur skipum samtímis.
Áfram var unnið að lengingu Aðalhafnargarðsins í Akraneshöfn og m.a. keypt stál fyrir lenginguna. Framkvæmdir við lenginguna hófust í maí 2023 og áætluð verklok eru haustið 2024. Þá má einnig nefna gerð hjólastígs á Fiskislóð ásamt undirbúningi á endurnýjun hafnarvogar og aðstöðu við Grandabakka. Unnið var að stækkun baksvæðis Tangabakka á Grundartanga. Því verkefni lauk í byrjun árs 2023.
Mikill og vaxandi áhugi hefur verið á Íslandi sem viðkomustað skemmtiferðaskipa samhliða fjölgun þeirra á heimsvísu og aukinni eftirspurn eftir farþegaskiptum stærri skipa. Komið var upp bráðabirgðaaðstöðu í tjöldum við Skarfabakka fyrir farþegaskipti. Auk þess voru keyptir og settir upp farþega- og farangursskannar í fyrsta sinn.
Til að mæta betur þörfum skipafélaga til framtíðar og tryggja að kröfur um þjónustu við farþega séu uppfylltar var unnið að vinnslu frumhönnunar nýrrar fjölnota farþegamiðstöðvar á Skarfabakka í Sundahöfn. Þar var í fyrsta sinn gerð krafa um lágmarkseinkunn samkvæmt BREEAM vottun. Í framhaldi af því var unnið að undirbúningi á samstarfssamkeppni um hönnun og framkvæmd sem haldin var á vormánuðum 2023. Lokaákvörðun um framkvæmdina verður tekin af stjórn Faxaflóahafna á árinu 2023.
Eignaraðilar Faxaflóahafna sf. og eignarhlutir þeirra voru í lok desember 2022 eftirfarandi:
Reykjavíkurborg | 75,5551% |
Akraneskaupstaður | 10,7793% |
Hvalfjarðarsveit | 9,3084% |
Borgarbyggð | 4,1356% |
Skorradalshreppur | 0,2216% |